Hjarta, ég dó í örmum þínum í kvöld. Það var líklega eitthvað sem þú sagðir.

Hjarta mannsinsHengiflugsatriðið skilaði af sér eftirlifendum, minna væri það nú. Ekki öllum, en meirihlutanum. Það verður að nægja á svona stað þar sem náttúran tortímir. Einhverjir komast í hús, kemur á óvart að aðalsöguhetjan er þar á meðal?, og lífið heldur áfram. Engin mannleg samskipti eru eftir forskrift og betra fólkið er fljótt að traðka niður fæti þegar smælingjarnir þykjast mega bæta sín kjör.

Hjarta mannsins er prýðisgóður endir á þríleik Jóns Kalmanns Stefánssonar af lífinu fyrir vestan. Ég verð þó að hnýta í útgefandann fyrir að halda því fram að það sé óhætt að lesa hverja bók fyrir sig, þessi á t.d. að vera „sjálfstætt framhald“ bókanna á undan. Það er haugalygi. Það væri mögulega hægt að lesa Harm englanna án þess að hafa lesið Himnaríki og helvíti, en ég mæli ekki með því. Aftur á móti væri algjört glapræði að lesa þessa sögu og ekki hafa fyrst lesið Harm englanna. Þetta er í raun og veru ein bók í tveimur hlutum og á að lesa saman.

Karlmennska verður flestu að fjörtjóni

Harmur englanna kápaÉg myndi aldrei fá mig til að skrifa bók um fólk sem berst við það á hverri blaðsíðu að komast gegnum kuldann, vindinn, hungrið og vosbúðina á fjöllum. Harmur englanna er önnur bókin í þríleik Jóns Kalmanns Stefánssonar um lífið við Ísafjarðardjúp fyrir hundrað árum. Strákurinn og pósturinn fara í harla tilgangslausa ferð yfir fjörðinn til að skila af sér nokkrum bréfum og gömlum tímaritum. Karlmennskan sjáðu til. Dauðinn bíður þeirra við hvert fótmál og kraftaverk má kalla að báðir ná að halda í líftóruna miðað við hrakningarnar. Í hvert skipti sem þeir rekast á mannabústað á þessum stað þar sem ekkert líf ætti að þrífast eru þeir fyrst spurðir: Komið þið sem lifandi eða dauðir? Og ekki að furða. Fólk rekst á fleiri drauga en lifandi verur á þessum slóðum. Manni verður kalt við að lesa þessa bók, sem bæðevei endar á cliffhanger. Bókstaflega. Kúdos til höfundar fyrir að nota það gamla trikk sem er jafn kært í minningunni fortsætter i næste nummer.

Einstígi lífs og dauða

Himnaríki og helvíti kápaÞetta gerist fyrir daga lattés í hundraðogeinum. Fyrir um öld eða svo sóttu vestfirðingar enn sjóinn á litlum bátskænum ósyndir allir með tölu. Nokkrar ótraustar fjalir undir fótum og þar undir djúp og vot gröf. Ekki þurfti annað en hvassviðri til að áhöfnin myndi farast með manni og mús. Það er ekki fyrir alla og allra síst draumóramenn.

Ég var ekki viss um framan af að Himnaríki og helvíti væri jafngóð og fyrri bækur Jóns Kalmanns Stefánssonar. Hún er köld og grafalvarleg, ekki vottur af húmor neins staðar sýnilegur á þessum hrjóstruga stað. En fyrr en varir hefur maður hrifist með vindinum og kynnst öllu gallaða fólkinu sem býr við heimsenda og það er þess virði.