Píslarganga á mölinni

solinordurmyri„Þeir eru taldir nógu slæmir sem selja lifandi ömmur. Hver vill kaupa ömmur? Þeir verstu selja ömmu sína, en standa svo ekki skil á henni þegar til kemur.“ (bls. 211)

Píslin er strákur sem elst upp í Reykjavík eftirstríðsáranna. Hann er af fyrstu kynslóð á mölinni og þarf að fóta sig á henni án þess að geta stutt sig mikið við foreldra sína sem ólust upp á grasbölum til sveita. Þarna rekast á tveir heimar hefðbundinnar íslenskrar sveitamenningar og hraðsoðinnar bandarískrar dægurmenningar, sem þykir ekki góður pappír en hefur endalaust aðdráttarafl á unga drengi.

Að því kemur á þroskaskeiðinu að öll þessi utanaðkomandi áhrif veita Píslinni innblástur til eigin sköpunar og sýnar á heiminn.

„Hann á að teikna trega kynslóðarinnar sem flutti á mölina. Dragi hann upp sveitamyndir liðast reykurinn upp um strompinn í bænum, en þeir sem skipta hann máli eru dauðir og grafnir í brekkunni bak við húsið.“ (bls. 216)

Sól í Norðurmýri er uppvaxtarsaga Megasar sem er að einhverju leyti lifuð og einhverju dreymd. Þórunn Valdimarsdóttir skrásetur og hjálpar honum að pússla saman þessum minningarbrotum. Miklu skiptir fyrir skilning á flúruðum textanum færni lesandans til að afkóða hugarheim Píslarinnar. Það gerir textann seinlesinn en þeir sem leggja í þá vinnu fá margt fyrir sinn snúð.