Miðaldra miðstéttarkona og grimmir glæpamenn

kataKata er samferðakona okkar í reykvískum samtíma. Hún les Jón Kalmann, borðar á Deli og Kopar. Hún á dóttur sem deyr en grunur leikur á að steratröll með tengsl við undirheimana og stunda B5 og Austur hafi byrlað henni ólyfjan. Kata fær andstyggð á feðraveldinu sem kemst upp með ofbeldi á konum og vill gera eitthvað í málinu.

Steinar Bragi vill auðsýnilega með Kötu færa undirheima borgarinnar inn í vitund lesandans og upp á yfirborðið. Honum er mikið niðri fyrir og að mörgu leyti er þetta sterk bók. En hún tekur óratíma að komast úr fyrsta gír, það er ekki fyrr en um bókina miðja, og hún er löng, að eitthvað fer að gerast. Eins og lýsingarnar af misnotkun unglingsstúlkna eru sannfærandi þá verður veruleikarof þegar áætlanir Kötu koma til framkvæmda og þær jarðtengingar sem nostrað hafði verið við eru slitnar frá.