Dularfulla líklosunin

mordidIferjunniUng kona finnst látin í skipastiga á vesturströnd Svíþjóðar. Hún hefur verið svívirt og myrt en enginn veit á henni nokkur deili né hvernig hún hefur lent á þessum stað. Rannsókninni hefði miðað betur ef lögreglumennirnir hefðu lesið titilinn á bókinni. Þar er flett ofan af ýmsu sem á ekki að koma í ljós fyrr en um miðbik sögunnar.

Morðið á ferjunni er önnur bókin sem ég les um Beck lögreglumann á frekar stuttum tíma og enn er ég hissa á rannsóknaraðferðum sænsku lögreglunnar. Lengi vel er gengið að því sem vísu að konan sé sænsk og búsett á svæðinu, þó svo að krökkt sé af ferðamönnum. En það er náttúrulega til að leiða frásögnina áfram. Sjöwall og Wahlöö hafa löturhægan stíl og aftur er mörgum spurningum ósvarað í lokin, ekki síst þeirri sem var mikilvægust í byrjun. Hvernig lenti tókst morðingjanum að losa sig við líkið án þess að nokkur yrði þess var? Það er tilefni til að taka málið upp að nýju.

Viðamikil rannsókn á veigalitlu hvarfi

madurinnsemhvarfÉg las sögur Sjövall & Wahlöö sem barn. Þau skötuhjúin eru öðrum frekar sek um að innleiða skandínavískt hversdagsraunsæi í spennubókmenntir. Mér er minnisstætt hversu grá og dapurleg mynd var dregin upp af tilverunni í Svíþjóð og lofaði sjálfum mér að þar myndi ég aldrei búa. Svo bjó ég þar í mörg ár. Ekki meira um það.

Manninn sem hvarf las ég þó ekki fyrr en nýverið. Sögusvið hennar er að mestu utan Svíþjóðar og það hefði ég munað. Þetta er undarleg bók. Það er eins og að höfundarnir hefðu ákveðið að setja Seinfeld konseptið í reyfarabúning og strípa það af bröndurum. Þegar sagan er hálfnuð hefur nákvæmlega ekkert gerst. Lögreglumaðurinn Beck er þá enn að barma sér yfir að hafa verið kallaður úr sumarfríi til að rannsaka hugsanlegt hvarf lítilsverðs mannræfils sem rétt eins gæti hafa flutt sig milli bæja án þess að skilja eftir símanúmer. Leikar æsast örlítið er birtist ein vergjörn kona og er upp úr því eiga sér stað tilefnislitlar barsmíðar. Það er bara rétt í lokin að það upplýsist nánast fyrir tilviljun að hvarf þessa náunga sem öllum var til ama hafi orðið með saknæmum hætti. Aldrei kemur fram af hverju mannshvarfið hafi verið rannsakað sem sakamál og hvers vegna rannsóknin hafi verið fyrirskipuð af háttsettum aðilum í stjórnkerfinu.

Hvað sem því líður er bókin merkilega skemmtileg aflestrar í hressilegri þýðingu Þráins Bertelssonar.