Dauðinn er eins og rúsínan í hvalsrassinum. Hvað skyldi vera hinumegin ?

vefarinnVefarinn mikli frá Kasmír rekur sögu ungs manns sem er ljóngáfaður og vel liðinn. Ísland þykir of lítið fyrir alla hans mannkosti og freistar hann því gæfunnar í siðaðra manna samfélögum.

Það er með öllu óskiljanlegt hvers vegna allir tigna hann eins og frelsarann. Í dag myndi Steinn Elliði að líkindum vera greindur sem siðblindur einstaklingur. Hann fyrirlítur bæði menn og dýr og ekkert kemst að nema eigið egó. Jafnvel þegar hann finnur loksins æðri mátt en sjálfan sig eftir að hafa rekið um í reiðileysi þess sem slitið hefur upp allar rætur finnur hann enga samúð.

Kristur, Kristur, ef þig aðeins gæti grunað alt sem þú hefur á samviskunni.

Aðeins einn sér í gegnum grímu Steins en þess örlög eru grimm. Æskuástin Diljá er dæmd til ógæfu allt frá því að hún lítur hann fyrst og skilur eftir sig slóð fallinna. Steinn Elliði segist vera hugfanginn af henni og trúir því kannski sjálfur en sú ást ristir grunnt.

Hann tók um báðar hendur henni sem snöggvast, einsog maður í fuglabúð grípur um tvo kjúklínga sem hann lángar að kaupa.

Vefarinn mikli frá Kasmír er saga eftir ungan mann sem er ljóngáfaður og hefur freistað gæfunnar í siðaðra manna samfélögum. Vonandi er þá samlegð höfundar og sögupersónu upptalin. Sennilega hafa samtímatúlkanir á hugmynd Nietzsches um ofurmennið mótað persónu Steins. Stíllinn ber þess merki að höfundur eigi eftir að taka út nokkurn þroska. Mikið er til að sýnast eins og setningar á frönsku, spænsku, ítölsku, latínu, ensku og eflaust fleiri málum sem dritað er um alla bókina án sýnilegrar ástæðu annarar en þeirrar að sanna að höfundur hafi menntað sig vel. Verkið er þó bráðskemmtilegt og svartur húmor sem eingöngu getur sprottið upp úr íslenskum jarðvegi gleður lesandann.