Hjarta, ég dó í örmum þínum í kvöld. Það var líklega eitthvað sem þú sagðir.

Hjarta mannsinsHengiflugsatriðið skilaði af sér eftirlifendum, minna væri það nú. Ekki öllum, en meirihlutanum. Það verður að nægja á svona stað þar sem náttúran tortímir. Einhverjir komast í hús, kemur á óvart að aðalsöguhetjan er þar á meðal?, og lífið heldur áfram. Engin mannleg samskipti eru eftir forskrift og betra fólkið er fljótt að traðka niður fæti þegar smælingjarnir þykjast mega bæta sín kjör.

Hjarta mannsins er prýðisgóður endir á þríleik Jóns Kalmanns Stefánssonar af lífinu fyrir vestan. Ég verð þó að hnýta í útgefandann fyrir að halda því fram að það sé óhætt að lesa hverja bók fyrir sig, þessi á t.d. að vera „sjálfstætt framhald“ bókanna á undan. Það er haugalygi. Það væri mögulega hægt að lesa Harm englanna án þess að hafa lesið Himnaríki og helvíti, en ég mæli ekki með því. Aftur á móti væri algjört glapræði að lesa þessa sögu og ekki hafa fyrst lesið Harm englanna. Þetta er í raun og veru ein bók í tveimur hlutum og á að lesa saman.

Leave a comment