Lífsviljinn

Yeonmi Park kápumyndÆvisögur vekja almennt ekki minn áhuga og hafa ekki gert frá því að Æskan gaf út sögu Glenn Hoddle og annarra sparvissra garpa. Þá gerði ég mér enn vonir um að rísa skyndilega upp úr öskustó hæfileikaleysis og spretta fram sem fullskapaður landsliðsmaður. Til að fræðast um Norður-Kóreu án þess að þurfa að fara þangað sjálfur er þó vísast til besta lausnin að lesa sögu þess sem sloppið hefur þaðan.

Yeonmi Park er ein slík ung kona. Fyrir henni hefur það verið á við djúpstæða áfallameðferð að skrifa þessa sögu, För att kunna leva á sænsku. Leiðin liggur frá sulti og seyru ógnveldisins Norður-Kóreu til mannbraskara Kína og að lokum til Suður-Kóreu gegnum Mongólíu. Sagan er einföld í uppbyggingu, án teljandi tilfinningadrama og harla áhugaverð.

Afsakið hlé

Einhvern veginn datt botninn úr þessu öllu saman. Áhuginn fyrir lestri dvínaði svo um munaði og hefur dropað úr einni bók á tveggja mánaða fresti undanfarin tvö ár frá beljandi stórfljóti þriggja bóka á mánuði árið 2015.

Frá síðustu færslu eru eftirfarnar bækur lesnar:

P.G. Wodehouse – Psmith in the City (fínasti Wodehouse, kannski helst til meinlaus)
John Irving – A Widow for One Year (Irving í toppformi)
Sölvi Björn Sigurðsson – Gestakomur í Sauðlauksdal (vel stíluð, en heldur innihaldslaus)
Ransom Biggs – Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn (prýðishugmynd, en afar slök úrvinnsla)
Fjodor Dostojevskí – Fjárhættuspilarinn (góð bók, en ekki meðal hans bestu)
Stephen King & Peter Straub – The Talisman (nú er nóg komið, ekki meiri King eða Straub fyrir mig)
Mons Kallentoft – Haustfórn (þokkalegur reyfari)
Graham Greene – The Human Factor (góð kaldastríðsstofnananjósnasaga)
Halldór Laxness – Brekkukotsannáll (frábært rit, léttur og skemmtilegur Laxness)
Knut Hamsun – Gróður jarðar (mjög góð, en hví er líf norsks alþýðufólks svo miklu bærilegra en okkar forfeðra?)
Philip K. Dick – A Scanner Darkly (aðeins of ruglingslegur Dick í þetta sinn)
Milan Kundera – Hátíð merkingarleysunnar (Kundera á að vera lengri)
P.G. Wodehouse – Carry On, Jeeves (fyrsta bókin um Jeeves og Wooster, hver kafli sjálfstæð saga, sem þó tengist hinum. Stórskemmtilegt)
Ragnar Helgi Ólafsson – Handbók um minni og gleymsku (skemmtilegar smásögur, ekkert endilega með skiljanlegum söguþráðum)