Sigin grásleppa

Fiskur fyrir lífið kápaEftir stormandi lukku bókarinnar um fiskinn til að bæta andann á vinnustaðnum var óhjákvæmilegt að Stephen Lundin, Harry Paul og John Christensen myndu freistast til þess að fá meiri afla með því að yfirfæra aðferðina á fleiri svið lífsins. Fiskur! fyrir lífið gerir nákvæmlega það og ekkert annað.

Aðferðin er í stuttu máli þessi: Hlustaðu á maka þinn og börn. Gerið lífið skemmtilegra saman. Vertu til staðar.

Það er ekki flóknara en svo. Nú er engin ástæða fyrir neinn að lesa þessa bók. Nema ef ske kynni að einhver hafi áhuga á illa skrifuðum texta um miðaldra konu sem hefur náð árangri á vinnumarkaðnum en er óánægð í einkalífinu og reynir að beita þeim brögðum sem gera hana að góðum stjórnanda á heimilisfólkið. Þá er þetta einmitt rétta bókin.

Hér kemur ekkert nýtt fram þó að höfundarnir geri sitt besta til að fylla 100 síður til prentunar. Þegar söguhetjan áttar sig á að hún hafi spikfitnað vegna álags sem tengist mikilli ábyrgð í vinnunni, fjölskyldulífi og áhyggjum af öllu mögulegu leitar hún til vinkonu sinnar sem er spengilegri en nokkru sinni fyrr. Sú hefur aldeilis fiskuppskriftina að flokkari búk: Hreyfðu þig rösklega 5-6 sinnum í viku og ekki borða unninn mat. Þessari velþekktu formúlu skvettir hún í þakklátt andlitið á konunni sem hvorki hefur tíma til að hreyfa sig né elda.

Hvað veldur? Annað en þú heldur

FreakonomicsEf ástæður þess sem hefur orðið væru alltaf þær sem allir ætluðu þá væri tilveran ókrefjandi. Viðtekið er þó ekki alltaf satt. Annars gætum við byggt sannleikann á meirihlutalýðræði og þyrfum ekki að stunda vísindi. Skoðanakannanir myndu ákveða hvort komu fyrst risaeðlurnar eða Adam og Eva. Steven D. Levitt og Stephen J. Dubner eru áhugasamir um undirliggjandi orsakir þess sem er.  Levitt er hagfræðingur sem aðhyllist þá skoðun að hagfræðin sé ekki endilega um fjármál heldur um raunhegðun mannsins. Siðfræði sé um það hvernig maðurinn ætti að vera, hagfræðin um hvernig hann er. Ef ég hefði verið búin að kynna mér þá nálgun er ég var að klára menntaskólann þá hefði ég örugglega valið hagfræði fram yfir heimspekina. Niðurstöðurnar koma oftast á óvart og margt storkar og hefur valdið deilum. Dæmi: fóstureyðingar fækka glæpum. Ég kyngi röksemdafærslunni en aðrir gera það svo sannarlega ekki.

Freakonomics er ekki heilstæð kenning þrátt fyrir nafngiftina og bókin er merkilega ósamanhangandi, en höfundarnir viðurkenna það greiðlega. Þeir taka hins vegar alveg nýja nálgun á gömul gögn og fræði sem er verulega spennandi.

Kokgleyptur öngull með einfaldri beitu

Fiskur!Ég vantreysti sjálfshjálparbókum. Húmbúkk yfir línuna ef þú spyrð mig. Snákaolía fyrir sökkera. Að vísu hef ég aldrei lesið sjálfshjálparbók. Ekki fyrr en nú. Hún er ekki slæm. Fljótafgreidd hæfilega illa skrifuð dæmisaga sem þrátt fyrir allt virkar hvetjandi á mann. Fiskur! hefur selst í gríðarlegu magni og ótrúlegasta fólk hefur étið boðskapinn upp til agna. Þetta er náttúrulega ferlega amerískt allt saman en virkar samt á einhverju stigi. Vel þess virði að reyna að tileinka sér ef maður ætlar að stjórna hópi fólks í verkefnavinnu.

Þegar vonin ein er eftir

hvitabokinÞetta er óþægileg bók aflestrar. Það er í raun of stutt síðan og sárin eru enn að gróa. Einar Már Guðmundsson lifir við flakandi svöðusárið. Hvíta bókin er skrifuð af reiðum manni sem nýlega hefur horft upp á veröldina hrynja umhverfis sig vegna gjörða þeirra sem áttu að treysta undirstöðurnar og byggja hana upp.  Hér er stjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar enn við völd, Icesave (hrollur) umræðan rétt komin af stað og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er skammaryrði en undir réttlátri vandlætingunni er sannfæringin um að stjórnmálamenn og fjárglæftamenn verði sóttir til saka og undanskotin sótt heim. Að upp úr öskunni rísi Fönix sjálfur sem nýtt og betra þjóðfélag. Heimssýn Íslendingsins er því jafn barnslega saklaus og fyrr, bara með öðrum formerkjum en áður.

Eitt hefur þó gerst að nú er þó loksins litið á bitlinga og fyrirgreiðslur sem hafa þótt sjálfsögð í íslensku þjóðfélagi um alla tíð sem merki um spillingu. Fram að hruninu var Ísland óspillt land.

Ísland var á yfirborðinu slétt og fellt velferðarsamfélag en undir niðri kraumaði spilling og vanhæfni. […] Í stað lýðræðis ríkti flokksræði. Flokkarnir lögðu áherslu á að setjast við kjötkatlana og planta sínu fólki í embætti. Þetta þýddi að vanhæft fólk leitaði í flokkana, fólk sem leit á flokksskírteini einsog prófskírteini og hæfnisvottorð. Það er þvi ekkert skrítið að gamla kerfið hafi barist fyrir völdum sínum og geri það enn. Það átti að velta kreppunni yfir á fólkið í landinu og halda svo áfram einsog ekkert hefði í skorist (bls. 114).

Einar Már áfellist spillta stjórnmálamenn og gráðuga fjárglæframenn en hann gerir enga tilraun til að varpa nokkurri sök á samfélagið sem slíkt. Fólkið í landinu er fórnarlamb þeirra sem fóru með völdin, þó svo að það hafi séð til þess að þessir sömu valdhafar ríktu í 18 ár. Þetta er meinsemd þessa þjóðfélags. Sökudólgurinn er alltaf einhver annar. Til þess að geta átt heimtingu á að þeir sem flestu ollu geri upp sinn þátt í hruninu verðum við öll að horfa í spegilinn og játa okkar þátt í því sem miður fór. Þar sem allir skorast undan ábyrgð verða engin reikningsskil.

Svarti sauðurinn

180px-TheSatanicBibleAð mörgu leyti er þetta heilbrigð lífssýn. Áhersla á holdið, jörðina og núið. Fyrirlitning á lofsöng, fyrirheitum um betra líf eftir dauðann og afneitun þess sem er hér og nú.

Anton Szandor LaVey, sem kallaður var Svarti páfinn af fylgjendum sínum, heldur því fram í the Satanic Bible að meinlætalifnaður og sállíkamlegir kvillar séu helstu banamein nútímamannsins: „It has been said that “the good die young.” The good, by Christian standards, do die young. It is the frustration of our natural instincts which leads to the premature deterioration of our minds and bodies“ (bls. 82-3).

Þetta er efnisleg og egóistísk lífssýn sem er í andstöðu við allt það sem okkur hefur verið kennt. Mikilvægasti dagurinn í lífi manns er fæðingardagur hans. Afneitun holdlegra fýsna er fyrir veiklunda fólk, maður á að gera það sem maður vill og hefna sín en ekki bjóða fram hinn vangann. Þó eru sakleysingjar friðhelgir og fólk á ekki að svala hvötum sem fyrirfinnast ekki. Ekki allir eru urrandi kynlífsfíklar eða óseðjandi matargöt.

Þó að ungabörnum sé ekki fórnað á altari nakinnar meyjar meðan hemkuklædd gamalmenni hórast með djöflinum þá er þessi trú andstyggileg þegar á botninn er hvolft. Boðuð er sjálfselska í stað samúðar. Þetta er samt bara hin hliðin á sama peningnum. Satanismi eins og LaVey boðar hann er fyrir fólk í valdastöðum, það fólk sem þegar hefur og vill hafa og beita sjálfu sér til framdráttar. Kristnin er trú fjöldans, hans sem ekki hefur en dreymir um að fá.