Strákurinn álf finnur

Artemis Fowl

Artemis Fowl

Artemis Fowl er strákormur á fermingaraldri. Hann er kominn af moldríku fólki en samt tekur hann mikla áhættu til að eignast meiri pening. Hann er glæpaforingi en er samt ekki harðsvíraður. Hann er öllum öðrum gáfaðri en samt er honum reglulega komið á óvart og áætlanir hans styðjast frekar við hundaheppni en úthugsað ráðabrugg. Hann er húmorslaus en segir samt lélega brandara við hvert tækifæri, sjálfum sér og öðrum til skapraunar. Í þessari sögu skorar hann á allt álfakyn án þess að góð ástæða liggi fyrir.

Artemis Fowl eftir Eoin Colfer er ævintýrasaga fyrir 13 ára krakka. Það er nógur hasar og fjör í henni til að sagan renni vel áfram, en fullorðnir lesendur fá samt lítið fyrir sinn snúð. Þeir lesendur sem eins og ég vonast eftir arftaka Harry Potter verða því að halda áfram að bíða.