Sigin grásleppa

Fiskur fyrir lífið kápaEftir stormandi lukku bókarinnar um fiskinn til að bæta andann á vinnustaðnum var óhjákvæmilegt að Stephen Lundin, Harry Paul og John Christensen myndu freistast til þess að fá meiri afla með því að yfirfæra aðferðina á fleiri svið lífsins. Fiskur! fyrir lífið gerir nákvæmlega það og ekkert annað.

Aðferðin er í stuttu máli þessi: Hlustaðu á maka þinn og börn. Gerið lífið skemmtilegra saman. Vertu til staðar.

Það er ekki flóknara en svo. Nú er engin ástæða fyrir neinn að lesa þessa bók. Nema ef ske kynni að einhver hafi áhuga á illa skrifuðum texta um miðaldra konu sem hefur náð árangri á vinnumarkaðnum en er óánægð í einkalífinu og reynir að beita þeim brögðum sem gera hana að góðum stjórnanda á heimilisfólkið. Þá er þetta einmitt rétta bókin.

Hér kemur ekkert nýtt fram þó að höfundarnir geri sitt besta til að fylla 100 síður til prentunar. Þegar söguhetjan áttar sig á að hún hafi spikfitnað vegna álags sem tengist mikilli ábyrgð í vinnunni, fjölskyldulífi og áhyggjum af öllu mögulegu leitar hún til vinkonu sinnar sem er spengilegri en nokkru sinni fyrr. Sú hefur aldeilis fiskuppskriftina að flokkari búk: Hreyfðu þig rösklega 5-6 sinnum í viku og ekki borða unninn mat. Þessari velþekktu formúlu skvettir hún í þakklátt andlitið á konunni sem hvorki hefur tíma til að hreyfa sig né elda.

Dularfulla líklosunin

mordidIferjunniUng kona finnst látin í skipastiga á vesturströnd Svíþjóðar. Hún hefur verið svívirt og myrt en enginn veit á henni nokkur deili né hvernig hún hefur lent á þessum stað. Rannsókninni hefði miðað betur ef lögreglumennirnir hefðu lesið titilinn á bókinni. Þar er flett ofan af ýmsu sem á ekki að koma í ljós fyrr en um miðbik sögunnar.

Morðið á ferjunni er önnur bókin sem ég les um Beck lögreglumann á frekar stuttum tíma og enn er ég hissa á rannsóknaraðferðum sænsku lögreglunnar. Lengi vel er gengið að því sem vísu að konan sé sænsk og búsett á svæðinu, þó svo að krökkt sé af ferðamönnum. En það er náttúrulega til að leiða frásögnina áfram. Sjöwall og Wahlöö hafa löturhægan stíl og aftur er mörgum spurningum ósvarað í lokin, ekki síst þeirri sem var mikilvægust í byrjun. Hvernig lenti tókst morðingjanum að losa sig við líkið án þess að nokkur yrði þess var? Það er tilefni til að taka málið upp að nýju.

Vistlegir norskir firðir

Benóní er póstsendill í litlu norsku sjávarþorpi, sem, eftir að hafa orðið sér til skammar, fær völd og ríkidæmi í sinn hlut frá jöfrinum á staðnum. Erfitt er að skilja hvað honum gengur til, en eitthvað grunar mann að fiskur liggi undir steini.

Knut Hamsun dregur hér upp skemmtilega mynd af plássi sem gæti svo vel verið íslenskt. Öfundin þegar lítilmennið er talið fá óverðskuldaða upphefð verður að kæti þegar óhjákvæmilegt bakslagið kemur. Þorpshöfðinginn sem er örlátur við vinnumennina á hátíðarstundum en ætlast til annars í staðinn. Hér vantar þó kuldann og grimmdina sem kemur með vindinum og hrjóstrugu landslaginu og óhjákvæmilega auðkennir íslensk ritverk af þessum toga. Að lestri loknum er maður furðu glaður og það getur ekki verið eðlilegt.

Mannaþefur í helli mínum

ilmurinnSumar bækur verður maður einfaldlega að lesa við og við. Ilmurinn, saga af morðingja hefur sama aðdráttarafl á mig og mykjuskán hefur á mýflugu. Það er einhver angan, keimur af stórbrotinni frásögn og heillandi sögusviði sem loðir við nasirnar og kallar mann til sín.

Með þessari bók tókst Patrick Süskind að draga upp skýra mynd af sérstakri og sérlega óaðlaðandi sögupersónu sem, þrátt fyrir einstæða grimmd og algjört tillitsleysi gagnvart öðrum, hegðar sér þó skiljanlega enda hefur enginn sýnt honum hlýju. Það eina sem hann hafði með sér frá fæðingu var þrjóskur lífsvilji og út frá því frjói óx óbifanlegt illgresið.

Hér mætast fagurbókmenntir og afþreying í sama pakkanum og sjá! það er undursamlegt.

Hvað veldur? Annað en þú heldur

FreakonomicsEf ástæður þess sem hefur orðið væru alltaf þær sem allir ætluðu þá væri tilveran ókrefjandi. Viðtekið er þó ekki alltaf satt. Annars gætum við byggt sannleikann á meirihlutalýðræði og þyrfum ekki að stunda vísindi. Skoðanakannanir myndu ákveða hvort komu fyrst risaeðlurnar eða Adam og Eva. Steven D. Levitt og Stephen J. Dubner eru áhugasamir um undirliggjandi orsakir þess sem er.  Levitt er hagfræðingur sem aðhyllist þá skoðun að hagfræðin sé ekki endilega um fjármál heldur um raunhegðun mannsins. Siðfræði sé um það hvernig maðurinn ætti að vera, hagfræðin um hvernig hann er. Ef ég hefði verið búin að kynna mér þá nálgun er ég var að klára menntaskólann þá hefði ég örugglega valið hagfræði fram yfir heimspekina. Niðurstöðurnar koma oftast á óvart og margt storkar og hefur valdið deilum. Dæmi: fóstureyðingar fækka glæpum. Ég kyngi röksemdafærslunni en aðrir gera það svo sannarlega ekki.

Freakonomics er ekki heilstæð kenning þrátt fyrir nafngiftina og bókin er merkilega ósamanhangandi, en höfundarnir viðurkenna það greiðlega. Þeir taka hins vegar alveg nýja nálgun á gömul gögn og fræði sem er verulega spennandi.

Ris og fall tukthúslims

JailbirdSakir duttlunga örlaganna fær holdgervingur meðalmennskunnar, Walter F. Starbuck, endalausar toppstöður innan stjórnsýslunnar og einkageirans og missir allt þess á milli; situr ýmist í fangelsi eða er forsmáður af fyrrum vinum og samherjum. Allt sem hann vildi var að fá lítilsverða stöðu á einhverri stofnun svo hann gæti siglt óséður inn í eftirlaunin. Í staðinn sveiflast hann endalaust milli allsnægta og örbirgðar.

Kurt Vonnegut skrifar hér enn eina svörtu kómedíuna um lúserinn sem rekur um í tilverunni en allar ákvarðanir hans sjálfs valda ófyrirséðri atburðarrás. Jailbird er fyrst og fremst ádeila á bandariskt stjórnkerfi og valdhafa. Ameríski draumurinn étur börnin sín.

Hjarta, ég dó í örmum þínum í kvöld. Það var líklega eitthvað sem þú sagðir.

Hjarta mannsinsHengiflugsatriðið skilaði af sér eftirlifendum, minna væri það nú. Ekki öllum, en meirihlutanum. Það verður að nægja á svona stað þar sem náttúran tortímir. Einhverjir komast í hús, kemur á óvart að aðalsöguhetjan er þar á meðal?, og lífið heldur áfram. Engin mannleg samskipti eru eftir forskrift og betra fólkið er fljótt að traðka niður fæti þegar smælingjarnir þykjast mega bæta sín kjör.

Hjarta mannsins er prýðisgóður endir á þríleik Jóns Kalmanns Stefánssonar af lífinu fyrir vestan. Ég verð þó að hnýta í útgefandann fyrir að halda því fram að það sé óhætt að lesa hverja bók fyrir sig, þessi á t.d. að vera „sjálfstætt framhald“ bókanna á undan. Það er haugalygi. Það væri mögulega hægt að lesa Harm englanna án þess að hafa lesið Himnaríki og helvíti, en ég mæli ekki með því. Aftur á móti væri algjört glapræði að lesa þessa sögu og ekki hafa fyrst lesið Harm englanna. Þetta er í raun og veru ein bók í tveimur hlutum og á að lesa saman.

Karlmennska verður flestu að fjörtjóni

Harmur englanna kápaÉg myndi aldrei fá mig til að skrifa bók um fólk sem berst við það á hverri blaðsíðu að komast gegnum kuldann, vindinn, hungrið og vosbúðina á fjöllum. Harmur englanna er önnur bókin í þríleik Jóns Kalmanns Stefánssonar um lífið við Ísafjarðardjúp fyrir hundrað árum. Strákurinn og pósturinn fara í harla tilgangslausa ferð yfir fjörðinn til að skila af sér nokkrum bréfum og gömlum tímaritum. Karlmennskan sjáðu til. Dauðinn bíður þeirra við hvert fótmál og kraftaverk má kalla að báðir ná að halda í líftóruna miðað við hrakningarnar. Í hvert skipti sem þeir rekast á mannabústað á þessum stað þar sem ekkert líf ætti að þrífast eru þeir fyrst spurðir: Komið þið sem lifandi eða dauðir? Og ekki að furða. Fólk rekst á fleiri drauga en lifandi verur á þessum slóðum. Manni verður kalt við að lesa þessa bók, sem bæðevei endar á cliffhanger. Bókstaflega. Kúdos til höfundar fyrir að nota það gamla trikk sem er jafn kært í minningunni fortsætter i næste nummer.

Einstígi lífs og dauða

Himnaríki og helvíti kápaÞetta gerist fyrir daga lattés í hundraðogeinum. Fyrir um öld eða svo sóttu vestfirðingar enn sjóinn á litlum bátskænum ósyndir allir með tölu. Nokkrar ótraustar fjalir undir fótum og þar undir djúp og vot gröf. Ekki þurfti annað en hvassviðri til að áhöfnin myndi farast með manni og mús. Það er ekki fyrir alla og allra síst draumóramenn.

Ég var ekki viss um framan af að Himnaríki og helvíti væri jafngóð og fyrri bækur Jóns Kalmanns Stefánssonar. Hún er köld og grafalvarleg, ekki vottur af húmor neins staðar sýnilegur á þessum hrjóstruga stað. En fyrr en varir hefur maður hrifist með vindinum og kynnst öllu gallaða fólkinu sem býr við heimsenda og það er þess virði.

Kokgleyptur öngull með einfaldri beitu

Fiskur!Ég vantreysti sjálfshjálparbókum. Húmbúkk yfir línuna ef þú spyrð mig. Snákaolía fyrir sökkera. Að vísu hef ég aldrei lesið sjálfshjálparbók. Ekki fyrr en nú. Hún er ekki slæm. Fljótafgreidd hæfilega illa skrifuð dæmisaga sem þrátt fyrir allt virkar hvetjandi á mann. Fiskur! hefur selst í gríðarlegu magni og ótrúlegasta fólk hefur étið boðskapinn upp til agna. Þetta er náttúrulega ferlega amerískt allt saman en virkar samt á einhverju stigi. Vel þess virði að reyna að tileinka sér ef maður ætlar að stjórna hópi fólks í verkefnavinnu.