Hjallur sem hangir saman á væntingum og von

Byggingin kápaJóhamar gengur fram á sviðið. Hann horfir yfir fjöldann. Menntskælinga sem vita ekki hvort þeir séu að koma eða fara. Kaldur sviti sprettur fram og honum skrikar fótur. Jóhamar seilist í vasaklútinn en finnur bara borðtuskuna. Sem treður sér upp í vit hans. Jóhamar berst fyrir lífi sínu meðan ungmennin fagna ógurlega.

Ég sá Jóhamar koma fram á sínum tíma. Hann flutti ljóðið um borðtuskuna og ætlaði að líða út af vegna álags. Við elskuðum það. Frábært ljóð og húmor sem hitti menntskælingana í hjartastað. Seinna kom hann fram á Smekkleysukvöldi í Tunglinu og lét óþreyjufulla HAM-liða yfirgnæfa ljóðalesturinn í miðjum klíðum. Það þótti mér miður. Því vænti ég mikils af þessari bók því sterkar minningar fylgja Jóhamri.

Byggingin á sína spretti en er torskilinn, lítt samhangandi prósi ungskálds sem er vanari öðru formati og það sem verst er án blaðsíðutals. Ég gat ekki lesið bókina í einum rykk þó að hún sé vart nema rúmar hundrað blaðsíður. Erfitt að segja án þess að telja síðurnar og hver nennir því. Þó eru þarna litlir molar sem ná að gleðja, líkt og: Einveran var að gera Sem sturlaðan. Sem gat ekki lengur talað við fólk Sem hét ekki lengur Siggi (bls. ?). 

Nægilega áhugavert til lesturs? Hver er það Sem veit?

Leave a comment