Afsláttur á 25000 nagla rúmi sem þarfnast samsetningar

Fakírinn kápaÞessar sögur eru skyndilega út um allt. Svo laufléttar að þær gætu verið uppblásnar af hláturgasi. Svo svífa þær burt og skilja ekkert spor eftir í minningunni.

Romain Puértolas er að sögn franskur rithöfundur en gæti sem best verið sænskur enda fellur Ævintýraferð fakírsins sem festist inni í IKEA-skáp að fjöldaframleiðslunni sem kemur frá frændum okkar, sérstaklega Gamlingjanum, eins og flís við rass. Tengslin eru bersýnileg þegar í titli bókarinnar. Eins og gamlinginn fer fakírinn um víðan völl, upplifir ótrúlegustu ævintýri og kynnist frægu fólki. Formúlan er einföld; það þarf bara að opna flatan pakkann, reyna að átta sig á myndaleiðbeiningunum og munda svo z-laga sexkantinn. Svo einföld að í miðri sögunni byrjar fakírinn að skrifa hana sjálfur.

Djók!!! ;) :D

brandarinn kápaOrð eru ekki algjör. Merkingin fer eftir ætlun þess sem segir þau, móttakandanum, kringumstæðunum og hvernig þau eru borin fram. Hótfyndni skilast oft mjög illa á prenti. Hver ber þá ábyrgð á orðunum, sá sem sendir eða sá sem tekur við? Brandarinn fjallar um atburðarás sem fer af stað þegar ungur maður sendir ungri konu póstkort sem hann heldur fram að innihaldi glettni sem muni forfæra dísina en allir aðrir túlka sem gagnrýni á ráðandi öfl frá pólitískum niðurrifsmanni. Eins og Milan Kundera er von og vísa eru persónur bókarinnar marglaga, það sem sést á yfirborðinu er aldrei allur sannleikurinn og í raun skilur enginn til hlítar ástæður fólks, ekki einu sinni sjálfs sín.