Lífsviljinn

Yeonmi Park kápumyndÆvisögur vekja almennt ekki minn áhuga og hafa ekki gert frá því að Æskan gaf út sögu Glenn Hoddle og annarra sparvissra garpa. Þá gerði ég mér enn vonir um að rísa skyndilega upp úr öskustó hæfileikaleysis og spretta fram sem fullskapaður landsliðsmaður. Til að fræðast um Norður-Kóreu án þess að þurfa að fara þangað sjálfur er þó vísast til besta lausnin að lesa sögu þess sem sloppið hefur þaðan.

Yeonmi Park er ein slík ung kona. Fyrir henni hefur það verið á við djúpstæða áfallameðferð að skrifa þessa sögu, För att kunna leva á sænsku. Leiðin liggur frá sulti og seyru ógnveldisins Norður-Kóreu til mannbraskara Kína og að lokum til Suður-Kóreu gegnum Mongólíu. Sagan er einföld í uppbyggingu, án teljandi tilfinningadrama og harla áhugaverð.

Afsakið hlé

Einhvern veginn datt botninn úr þessu öllu saman. Áhuginn fyrir lestri dvínaði svo um munaði og hefur dropað úr einni bók á tveggja mánaða fresti undanfarin tvö ár frá beljandi stórfljóti þriggja bóka á mánuði árið 2015.

Frá síðustu færslu eru eftirfarnar bækur lesnar:

P.G. Wodehouse – Psmith in the City (fínasti Wodehouse, kannski helst til meinlaus)
John Irving – A Widow for One Year (Irving í toppformi)
Sölvi Björn Sigurðsson – Gestakomur í Sauðlauksdal (vel stíluð, en heldur innihaldslaus)
Ransom Biggs – Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn (prýðishugmynd, en afar slök úrvinnsla)
Fjodor Dostojevskí – Fjárhættuspilarinn (góð bók, en ekki meðal hans bestu)
Stephen King & Peter Straub – The Talisman (nú er nóg komið, ekki meiri King eða Straub fyrir mig)
Mons Kallentoft – Haustfórn (þokkalegur reyfari)
Graham Greene – The Human Factor (góð kaldastríðsstofnananjósnasaga)
Halldór Laxness – Brekkukotsannáll (frábært rit, léttur og skemmtilegur Laxness)
Knut Hamsun – Gróður jarðar (mjög góð, en hví er líf norsks alþýðufólks svo miklu bærilegra en okkar forfeðra?)
Philip K. Dick – A Scanner Darkly (aðeins of ruglingslegur Dick í þetta sinn)
Milan Kundera – Hátíð merkingarleysunnar (Kundera á að vera lengri)
P.G. Wodehouse – Carry On, Jeeves (fyrsta bókin um Jeeves og Wooster, hver kafli sjálfstæð saga, sem þó tengist hinum. Stórskemmtilegt)
Ragnar Helgi Ólafsson – Handbók um minni og gleymsku (skemmtilegar smásögur, ekkert endilega með skiljanlegum söguþráðum)

 

Tálknafjörður

lungnafiskarMyndbrot af afarrólegu lífi í íslenskum hvunndegi sem þó er ankannalegur á hátt sem erfitt er að henda reiður á, líkt og velkt ljósmynd úr sveitinni þar sem glittir í eitthvað bakvið hlöðuna sem gæti verið geimskip. Þannig birtast mér Lungnafiskar Gyrðis Elíassonar. Í þessu fyrsta smáprósasafni höfundar er margt heillandi en líka undarlega margt sem skilur ekki eftir sig spor. Stíllinn er oft unaðslegur en höfundur á líka sín uppáhaldsorð og líkingar sem eru endurteknar svo eftir er tekið. Á ströndinni gjálpar sjórinn iðulega við eitthvað, og kannski er það alveg í stakasta lagi. Það veldur hinsvegar smá árekstri við prósann sem á að flæða (og gjálpa).

SVR

the bfg myndKannski er hægt að læra heilt tungumál með því einu að lesa sömu bókina aftur og aftur, en það hefur sínar takmarkanir og orsakar alls kyns ambögur. The BFG eða Stóri vinalegi risinn fékk einu sinni “lánaða bók” og skilaði henni aldrei aftur. Nú er hann búinn að fá “lánaða” litla stelpu og sér ekki fram á að skila henni heldur. Umkringd risastórum risum sem spæna í sig gommu af litlum stelpum og sjálf með ekkert matarkyns annað en viðbjóðslegar gúrkur er framtíð Sophie gráleit. En það er vonarglæta í myrkrinu.

Roald Dahl samdi þessa sögu víst handa börnum sínum og sá kunni listina að hræða, skemmta og heilla börn. Alveg gloriumptious.

Enginn rjómi

soadqFyrst hélt ég að það væri vegna þess að samanburðurinn við A Song of Ice and Fire væri óhagstæður, Raymond E. Feist er þrátt fyrir allt enginn George R. R. Martin, en hver er það svo sem. Svo áttaði ég mig á að enginn lestur átti sér stað. Þessi bók hafði ekkert aðdráttarafl og rykféll oft dögunum saman.

Shadow of a Dark Queen er undanrennufantasía sem gefur litla fyllingu. Erik er tiginborinn bastarður sem þarf að leggja á flótta vegna bróðurmorðs en er handsamaður og þarf að leggjast í hernað gegn illum öflum með öðrum úrþvættum. Ekki ósvipað og Suicide Squad, nema hvað þetta lið heldur manni ekkert við efnið.

Þetta er fyrsta bókin af fjórum í The Serpentwar Saga. Ég á tvær af hinum heima, held þær fái að liggja óhreyfðar áfram.

 

Ertu að tala við mig!

brooklyn follies kápaSögusviðið er næstum áþreifanlegt, svo kunnuglegt er það. Samt hef ég aldrei farið til Bandaríkjanna, hvað þá til Brooklyn. Það er þessi stemmning sem maður finnur í bókum og kvikmyndum sem fer ekki milli mála. Miklar samræður, einhver smá þungi, allir hugsi, enn meiri samræður, kaffistaðir, gangur um götur og samræður, var ég nokkuð búinn að gleyma þeim. Allir eru einir en tala endalaust saman. Lítið bara á “The Squid and the Whale”, borgarsenurnar í “The World According to Garp”, svo til allt eftir Woody Allen þó svo að hann hangi mest á Manhattan. Að ógleymdum meistaranum sjálfum. Ekkert segir Brooklyn eins og Paul Auster. Hér fer hann alla leið og skýrir bókina hreinlega The Brooklyn Follies. Hún er náttúrulega perla. Nema fyrir þá sem vilja ekki lesa bækur sem eru bara samtöl, hugsanir og engin framvinda. Þá er hún drepleiðinleg. Við ykkur vil ég segja: Ég vorkenni ykkur.

Afsláttur á 25000 nagla rúmi sem þarfnast samsetningar

Fakírinn kápaÞessar sögur eru skyndilega út um allt. Svo laufléttar að þær gætu verið uppblásnar af hláturgasi. Svo svífa þær burt og skilja ekkert spor eftir í minningunni.

Romain Puértolas er að sögn franskur rithöfundur en gæti sem best verið sænskur enda fellur Ævintýraferð fakírsins sem festist inni í IKEA-skáp að fjöldaframleiðslunni sem kemur frá frændum okkar, sérstaklega Gamlingjanum, eins og flís við rass. Tengslin eru bersýnileg þegar í titli bókarinnar. Eins og gamlinginn fer fakírinn um víðan völl, upplifir ótrúlegustu ævintýri og kynnist frægu fólki. Formúlan er einföld; það þarf bara að opna flatan pakkann, reyna að átta sig á myndaleiðbeiningunum og munda svo z-laga sexkantinn. Svo einföld að í miðri sögunni byrjar fakírinn að skrifa hana sjálfur.

Djók!!! ;) :D

brandarinn kápaOrð eru ekki algjör. Merkingin fer eftir ætlun þess sem segir þau, móttakandanum, kringumstæðunum og hvernig þau eru borin fram. Hótfyndni skilast oft mjög illa á prenti. Hver ber þá ábyrgð á orðunum, sá sem sendir eða sá sem tekur við? Brandarinn fjallar um atburðarás sem fer af stað þegar ungur maður sendir ungri konu póstkort sem hann heldur fram að innihaldi glettni sem muni forfæra dísina en allir aðrir túlka sem gagnrýni á ráðandi öfl frá pólitískum niðurrifsmanni. Eins og Milan Kundera er von og vísa eru persónur bókarinnar marglaga, það sem sést á yfirborðinu er aldrei allur sannleikurinn og í raun skilur enginn til hlítar ástæður fólks, ekki einu sinni sjálfs sín.

Hjallur sem hangir saman á væntingum og von

Byggingin kápaJóhamar gengur fram á sviðið. Hann horfir yfir fjöldann. Menntskælinga sem vita ekki hvort þeir séu að koma eða fara. Kaldur sviti sprettur fram og honum skrikar fótur. Jóhamar seilist í vasaklútinn en finnur bara borðtuskuna. Sem treður sér upp í vit hans. Jóhamar berst fyrir lífi sínu meðan ungmennin fagna ógurlega.

Ég sá Jóhamar koma fram á sínum tíma. Hann flutti ljóðið um borðtuskuna og ætlaði að líða út af vegna álags. Við elskuðum það. Frábært ljóð og húmor sem hitti menntskælingana í hjartastað. Seinna kom hann fram á Smekkleysukvöldi í Tunglinu og lét óþreyjufulla HAM-liða yfirgnæfa ljóðalesturinn í miðjum klíðum. Það þótti mér miður. Því vænti ég mikils af þessari bók því sterkar minningar fylgja Jóhamri.

Byggingin á sína spretti en er torskilinn, lítt samhangandi prósi ungskálds sem er vanari öðru formati og það sem verst er án blaðsíðutals. Ég gat ekki lesið bókina í einum rykk þó að hún sé vart nema rúmar hundrað blaðsíður. Erfitt að segja án þess að telja síðurnar og hver nennir því. Þó eru þarna litlir molar sem ná að gleðja, líkt og: Einveran var að gera Sem sturlaðan. Sem gat ekki lengur talað við fólk Sem hét ekki lengur Siggi (bls. ?). 

Nægilega áhugavert til lesturs? Hver er það Sem veit?

Þegar asnarnir taka sig saman

A Confederacy of Dunces kápaEinhver sagði að til að búa til góða sögupersónu verði að sýna breyskleika hennar með skýrum hætti, þannig verði hún að holdi og blóði. Fáar sögupersónur eru jafn mikið í holdum og Ignatius Reilly, sem brestur í á svo mörgum stöðum að það er mesta furða að hann standi uppi. Enginn setur sig á jafnháan stall og enginn er jafnvaltur á fótunum. Allt í kringum hann snýst stórkostlegt samansafn breyskra sögupersóna en engin er jafnflott og kerlingarhróið sem þráir að fara á eftirlaun en fær það ekki vegna góðsemi konu forstjórans.

A Confereracy of Dunces er seinni skáldsagan eftir John Kennedy Toole sem framdi sjálfsmorð áður en hún var gefin út og fór eins og eldur um sinu um heimsbyggðina. Það er ómögulegt annað en reyna að ímynda sér hvað hefði getað orðið.